Ég gef kost á mér á lista Samfylkingar í suðvesturkjördæmi.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér á lista Samfylkingar í suðvesturkjördæmi. Þar sem krafan eftir nýju fólki er mikil fannst mér ekki annað hægt að taka þeirri áskorun. Ég tel mikilvægt að það fólk sem stendur á hliðarlínunni og telur sig hafa eitthvað fram að færa nýti tækifærið núna og gefi kost á sér.

Ég stend fyrir jöfnuð í samfélaginu, ég vil sanngjarna skiptingu gæða, jöfn tækifæri fyrir fólkið í landinu hvort heldur sem er til sjávar eða sveita. Ég vil beita mér fyrir því að hér skapist samfélag sem er hvetjandi fyrir manneskjuna til athafna sér til viðurværis. Hér býr fólk sem kann og getur, hefur þor og dugnað og því þarf að sinna núna.

Ég vil sjá virka fjölskyldustefnu þar sem hugað er að velferð allra fjölskyldna. Ég stend með fjölmenningarlegu samfélagi. Ég vil sjá menntastofnanir eins og leik- og grunnskóla vera virkari aðila að velferð fjölskyldunnar. Þessar stofnanir eru það umhverfi sem börn dvelja lengstum tíma sínum dag hvern, og við sem störfum innan þessara stofnana berum mikla ábyrgð. Ég vil sjá stjórnvöld styrkja þætti sem lúta að frekari þróun þessara stofnana. Iðnvæðingarumhverfið er löngu úrelt og nú verðum við að sinna einstaklingunum út frá þeirra forsendum og aðlaga umhverfið að þeirra þörfum og standa með einstaklingunum.

Ég vil sjá áherslur breytast til að mynda í grunnskólunum þar sem megin stef menntunar barna og unglinga fari að snúast um líðan, sjálfsstyrkingu og verðleika hvers og eins. Hver einstaklingur býr yfir ákveðnum styrkleikum og menntastofnanir eiga að vera að styrkja þessa þætti hjá hverjum og einum. Frumkvæði, þor og kjarkur eru eiginleikar sem eru öllum mikilvægir og ekki síst nauðsynegir samfélaginu sem við búum í.

Ég gef kost á mér til að virkja mannauðinn í landinu fyrst og fremst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband