En eigiði ekki allar börn???
25.2.2007 | 16:44
Þessa spurningu bar Jón nokkur Ólafsson (Jón góði) upp við Erlu nokkra söngkonu í Dúkkkulísunum í þættinum sínum núna á laugardagskvöldið. Spurningin stakk mig fyrir margra hluta sakir.
Ég velti því fyrir mér hvað það er sem fær spyril eins og Jón til að spyrja sérstaklega kvenpoppara og rokkara um barnaskarann sem þeim fylgir? Hvers vegna ætti það augljóslega að vera kvenrokkurum erfiðara að vera í "bransanum" ef þær eiga börn? Af hverju er það þá ekki augljóslega erfiðara fyrir alla strákana í "bransanum" að koma sér áfram þrátt fyrir öll börnin sem þeir eiga???
Jón talaði reyndar um það í sama þætti að hann reyndi allt sem hann gæti til þess að grafa upp kvenrokkara eða poppara og kvennahljómsveitir til að hafa í þættinum en ekkert gengi - stelpurnar virtust ekki vera í "bransanum"... Því Jón hafði nefnilega fengið ábendingar um að hann talaði við afar fáar stelpur sem kæmu nálægt "bransanum".
Kannski þarf ég ekki að vera að veita þessu sérstaka athygli og láta liggja eftir mig skriflegar vangaveltur um svo lítilfélegt mál - eða hvað?
Er ekki einmitt full þörf á því að við veitum orðræðunni athygli og fylgjum henni eftir, látum hana skipta okkur máli. Öðruvísi fáum við litlu breytt. Ég er alveg fullviss um að Jón góði horfir ekki á "bransann" sem meira fyrir stráka en stelpur en menningin segir okkur það og við erum menningin og getum haft áhrif á menninguna. Áfram stelpur!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:46 | Facebook
Athugasemdir
Sumir hugsa ekki lengar en nef þeirra nær og láta allt flakka sem kemur upp í þeirra littla kolli
Sæunn (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 21:41
Hæ, hæ Sara Dögg. Vissi ekki af blogginu þínu fyrr en ég sá þessa frábæru athugasemd um spurninguna um hve barnmargar konur í hljómsveitum væru. Skyldi ákveðin ung söngkona eiga nokkurn sjens núna eftir að hún hefur fætt barn... Það er önnur saga.
Leit einnig á það sem þú skrifar um þessa "gömlu" kennara á fimmtugsaldri! Hey, hey, mín kæra Sara Dögg - er fólk sem er rúmlega fertugt GAMALT?!
Vinarkveðja - Jórunn
Jórunn Sörensen (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 13:24
Takk fyrir þetta kæra Jórunn, gaman að fá punkta frá þér :-) þetta með gamla fólkið - nei grín. En ungu kennarana vantar sárlega til starfa.
Sara Dögg, 26.2.2007 kl. 13:57
Svona svona...Allir rólegir bara.
Ég á sjálfur þrjú börn og ég veit um mjög marga karlmenn sem eiga börn.Sennilega eru feður álíka margir og mæður. Enn er það þó þannig að kornabörn eru háðari móður sinni en föður og helgast það ekki sízt af þörf hins nýfædda barns til brjóstamjólkurdrykkju. Þetta vita allir. Líka Dúkkulísurnar. Sem gallharður jafnréttis-sinni fannst mér um að gera að vekja athygli á hinum harðduglegu Dúkkulísum í stað svona 30 austfirskra karlahljómsveita. Það stóð aldrei til að gera lítið úr Erlu, söngkonu og kynsystrum hennar með spurningunni varðandi blessaðar barneignirnar. Það má orða hluti á marga vegu og leitt til þess að vita að út frá spurningunni sé lagt á versta veg. Hitt veit ég að á fyrsta ári barns er mjög erfitt fyrir móður með barn á brjósti að gefa sér tíma til alls þess vafsturs sem tilheyrir hljómsveitarvinnu. Og meðgangan getur verið afar erfið líka. Við skulum ekki gera lítið úr álagi sem fylgir meðgöngu,fæðingu og brjóstagjöf. Þetta útskýrir spurninguna sem var dembt yfir vesalings Dúkkulísuna.
Hinsvegar er víða vegið að okkur feðrum þó við séum seinþreyttir til að væla undan slíku. Tímaritið Fyrstu skrefin hefur ekki enn birt mynd af föður með barn sitt á forsíðu, sú síða virðist algjörlega eign mæðranna. Sorglegt finnst það mér, föðurnum. Og lang stærstur hluti blaðsins er tileinkaður mæðrum, meðgöngusögum mæðranna og virðist blaðið meira eða minna skrifað út frá sjónarhorni móður en föður. Vantar töluvert upp á jafnréttið í þessum annars ágæta og um margt nauðsynlega pésa.
Jón Ólafsson, tónlistarmaður
Jón Ólafsson (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 13:39
Takk fyrir að líta við kæri Jón. Ætlunin var engan veginn að ganga á þig sérstaklega, ég hef ekkert við þig að sakast - fínn náungi að mér finnst. Það sem ég er að fara er hve mikilvægt er að staldra við orðræðuna hvar og hvenær sem er. Þetta er einmitt svipað því þegar verið er að ala börn upp með ákveðnum gildum í huga, það þarf endalaust að fara inn í umræðuna sem á sér stað, gera athugasemdir og beina á rétta braut. Öðruvísi skilar uppeldið engum eða kannski slökum árangri.
Sara Dögg, 27.2.2007 kl. 20:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.