Jóhanna er krafturinn!

Landsfundi lokið og eftir situr ótrúleg tilfinning þess eðlis að nú gerist það. Samfylkingin er að fara inn í tíma þar sem aðstæður þarfnast fólksins sem þar er á bak við. Jafnaðarmennska er það tæki sem þarf að brýna og nýta á næstu misserum. Það er fólkið í landinu sem bíður eftir aðgerðum og nýrri sýn stjórnvalda á samfélagið í heild sinni. Sýn sem gefur von, vilja, þor og kjark til þess að hefja nýja tíma með bjartsýni í brjósti og gleði. Það munum við gera á næstu misserum. Okkar hlutverk er að fá fólkið með okkur, fá það til þess að trúa og treysta þeim sem í stafninu standa. Með Jóhönnu fremsta í flokki, fyrirmyndinni okkar allra munum við finna farsæla leið upp á við.

Jóhanna tók þetta með trompi og af mikilli sannfæringu stappaði hún í okkur eldmóði sínum og dugnaði. Þvílík kona og þvílkur andi.

Ég hlakka mikið til þeirrar vinnu sem framundan er - því nú er verk að vinna!


Lýðræði í skólastarfi.

Lýðræðið er umfangsmikil umræða í þjóðfélaginu um þessar mundir og mörgum sem finnst margt. Þegar komið er á hið háa Alþingi er krafist þess að vinnubrögð séu lýðræðisleg og margt sem þykir miður fara í því sambandi.

En hvar lærum við sem einstaklingar þess konar vinnubrögð? Eru samfélagasstoðirnar okkar byggðar upp með lýðræðislegum vinnubrögðum? og er þátttaka þegnanna virt?

Það skiptir öllu máli í mínum huga að lýðræðisleg vinnubrögð séu æfð strax við upphaf skólagöngu. Börn þurfa virka þjálfun í að iðka lýðræðið til þess að krafan verði sanngjörn þegar á fullorðinsaldurinn er komið. Það sem ekki er æft ber aldrei góðan árangur!

Hér þarf að setja við nýjan tón - skólastofnanir samfélagsins verða að taka virkt lýðræði inn í inntak sitt og æfa börn sem og fullorðna innan hverrar stofnunar í slíkum félagslegum athöfnum. Það kostar virðingu fyrir skoðunum einstaklinganna, tækifæri til að tjá þær, sem og að fylgja þeim eftir hverju sinni. Slíkt er vinna en vel framkvæmanleg innan hvers skólasamfélags fyrir sig. Þar sem einmitt ætti að vera einstaklega gott umhverfi og kjöraðstæður fyrir slíkar æfingar í raunveruleikatengdum verkefnum við raunverulegar aðstæður.

Skólar Hjallastefnunnar hafa frá upphafi unnið markvisst með þessa þætti og má sjá verulegar framfarir í félagslegum samskiptum barna sem æfa lýðræðisleg vinnubrögð á eigin skinni. Við verðum að horfa til framtíðar og miða skóla nútímans við þær þarfir og kröfur sem við viljum gera til þegna nútíðarinnar og framtíðarinnar. Skoðanaskipti og athafnir undir merkjum lýðræðisins skila sér til framtíðar og byggja upp einstaklinga með góðan félagslegan þroska.

 


Lífið eftir prófkjör!

Nokkuð merkileg upplifun þegar prófkjörið er á enda, niðurstaða fengin og sumir sáttari en aðrir. Ég er vel sátt við mína niðurtöðu - bið ekki um meira. Ég var nýtt andlit að feta fyrstu sporin á nýjum stíg. Nú er sund milli stríða, beðið eftir lokaniðurstöðu með uppröðun á listann.

Og þá er gott að ígrunda á meðan. Ég er ekki frá því að mér finnist prófkjör sérkennileg leið til þess að raða saman fólki á lista sérhvers flokks. Það leggja allir kapp sitt við að halda stemningunni í hópnum í meðallagi en allir eru að keppast um mikilvæg atkvæði til að koma sjálfum sér áfram... Vissulega var þetta snörp keppni aðeins tvær vikur eða svo...ég fann verulega fyrir því hvað maður verður sjálfhverfur í þessu stappi öllu saman... það fór að hamast í mér gamla góða keppnisdæmið og allt fór á fulla ferð... óholl spenna fór að byggjast upp sem ég tel að sé hverjum einstaklingi óholl. 

Prófkjörið sjálft var svolítið hitt lífið, fundirnir annar heimur en sá veruleiki sem maður tilheyrir í daglega lífinu sínu og margt óvenjulegt alla vega fyrir nýtt andlit..en kannski er þetta svona alla daga þegar í pólitíkina er komið - efa það samt einhvern veginn....


Sara Dögg í 2. - 4. sæti - nýtt fólk á Alþingi.

Kæru félagar. Hendi inn þessu klippi. Smá hik hér og þar en það er bara mannlegt - njótið og brosið út í annað og kjósið svo :-) http://vimeo.com/3584376

 Baráttukveðja - Sara Dögg


Hvert stefnir í atvinnumálum á Íslandi?

Það skiptir máli að almenningur skynji hvert skuli haldið í atvinnumálum. Þjóðin stefnir í atvinnuleysi sem aldrei fyrr og fólk fyllist af ótta og reiði yfir því ástandi sem nú er. Það er ljóst að við verðum að fara nýjar leiðir. Við verðum að tengja saman fjölskyldulíf og atvinnulífið. Þessir þættir verða að spila saman og finna samhljóm sín á milli.

Atvinnustefna er mikilvægt tæki sem brýnt er að koma á laggirnir fyrr en seinna. Samfylkingin á að leiða slíka stefnumótun og tala skýrt í því sambandi. Þar sem horft er til umhverfisins og mannauðsins um leið. Ég horfi til nýsköpunar, sprotafyrirtækja og landbúnaðar þar sem lögð er áhersla á séreinkenni hvers bónda og gæði framleiðslunnar. Eflum fiskvinnslu í landinu og fjölgum störfum í greininni.

Stytting vinnudagsins er mál sem vert er að koma í umræðuna á ný er það ekki einmitt kjörið tækifæri á tímum sem þessum. Færri störf í boði og vert að huga að þeim mannafla sem hefur ekki til neinnar vinnu að líta. Fleiri vinni sömu störfin en styttri vinnudag um leið. Með slíkum aðgerðum væri komið til móts við efnahag fjölskyldunnar þ.e. að vistunarkostnaður barnafjölskyldna væri mögulegt að lækka með styttri vinnudegi og styttri vistun í leikskólum og frístundaskólum landsins.

Ég las grein eftir flokksfélaga minn Skúla Helgason sem ég vil endilega að lesendur mínir kíki á. http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/1234. Ég hlakka til að vinna að þessari stefnumótun með Skúla Helgasyni og þakka honum fyrir þessi skrif.

 


Prófkjörið.

Þátttaka í prófkjöri er merkileg reynsla fyrir margar sakir. Ekki bara fyrir það að þar fær maður tækifæri til að koma sínum hugsjónum á framfæri í hópi fólks sem virkilega lætur pólitík skipta sig máli, heldur ekki síður fyrir þá upplifun sem hún er.

Mér þykir afar merkilegt t.d. hve kynningarfundirnir hingað til hafa verið vel sóttir af karlkyninu. Konurnar virðast ekki vera að láta þetta trufla sig þessa dagana, alla vega mun færri. Merkilegt nokk - en skýrir kannsi líka margt gagnvart stöðu kvenna í pólitík hingað til. Að mínu mati er þetta vettvangurinn til að koma sér af stað, hvort sem viðkomandi hefur unnið mikið eða lítið flokkspólitískt starf um æfina. Og konur þurfa að vera stærri hópur þátttakanda en raun ber vitni - engin spurning.

Ég er full tilhlökkunar og er farin að sjá fyrir mér afar spennandi kosningu. Ég hvet alla til að taka þátt - kosning hefst á fimmtudaginn á www.xs.is og líkur á laugardaginn.

Ég býð mig fram af mikill einurð, þar sem ég hef lofað sjálfri mér að vera heiðarleg, samkvæm sjálfri mér og góður hlustandi.

Sara Dögg í 2. - 4. sæti !


ESB og íslenskur landbúnaður.

Ég er í því að leita að góðum upplýsingum um ESB og landbúnaðarmál. Hér er ein slóð á grein eftir Ágúst Einarsson. Skýrir margt mjög vel kíkið á þetta. http://www2.hi.is/Apps/WebObjects/HI.woa/swdocument/1009772/N%C3%BD+sta%C3%B0a_%C3%81g%C3%BAst+Einarsson.pdf.

Það er mín trú að þegar vel er að gáð þá megi finna margt gott og íslenskum landbúnaði til stuðnings þrátt fyrir allt. Í mínum huga er þetta eins og annað spurning um ný viðhorf, nýja sýn á möguleika og þau tækifæri sem leynast í landbúnaði yfirleitt - mæli með að bændur vinn í að upplýsa sig um málið af alvöru. Var líka að lesa ályktanir frá búnaðarþinginu sem nú er nýafstaðið. Þar má finna þetta http://www.bondi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=1312    um inngöngu í ESB sem samþykkt var að vera á móti.

Það er ótrúlega mikilvægt að almenningur sé upplýstur heyri ekki einungis klisjurnar og viti aldrei hver kjarni málsins er.


Pólitískar áherslur.

Þetta erum málin sem ég stend fyrir. Ég minni á það að ég býð mig fram til þess að taka þátt í að vinna þau verk sem framundan eru í anda jafnaðarmanna og stefnu Samfylkingarinnar.

- Virk fjölskyldustefna. Bráðnauðsynlegt að fá heildarsýn og stefnu sem fylgjandi er eftir. Börn og fjölskyldur þeirra þurfa á stuðningi að halda og við eigum að styrkja nærsamfélagið þeirra um land allt. Grunnþjónustan má ekki veikjast.

- Nýtt hlutverk skólastofnana. Mikilvægt að endurmeta hlutverk skólastofnana með þeim hætt að við sammælumst um að horfa á menntastofnanir fyrst og fremst sem þjónustustofnanir. Þarfir barna og foreldra þarf að setja í forgang, þannig náum við enn meiri árangri í bættri líðan og betri námsárangri.

- Atvinnumál. Sleppum ekki takinu á þeim fjölbreyttu möguleikum um land allt. Mikilvægt að styrkja þá einstaklinga og þau verkefni sem eru að eiga sér stað nú þegar. Ýtum undir nýsköpun og virkjum kraft einstaklingsins.

- Evrópusambandið. Förum í aðildaviðræður, upplýsum fólkið í landinu um það hvað í því felst fyrir íslenska þjóð. Gjaldmiðil í jafnvægi er nauðsynlegt.


Hin pólitíska sýn.

Mikilvæg mál.....

Virk fjölskyldustefna - menntamál

Fjölskylduna þarf að styrkja sérstaklega á erfiðum tímum. Við þurfum að skapa nýja sýn á nýjum forsendum hvað varðar fjölskyldumál. Þar sé ég skólakerfið þjóna lykilhlutverki. Skólakerfið er sú stofnun samfélagsins sem allar fjölskyldur stóla á og öll ungmenni verja meirihluta tíma sínum innan. Skólakerfið þarf að verða sú eining sem bakkar fjölskyldurnar upp - tengist þeim enn sterkari böndum og veitir alla þá grunnþjónustu sem fjölskyldur þurfa á að halda með börn sín. Við þurfum á nýrri stefnu að halda, nýja sýn á hlutverk skólastofnana. Skólinn þarf að vera þjónustustofnun og hugsuð þannig, í þágu barna og foreldra. Við þurfum að víkja frá gömlum gildum.

Það er mitt mat að innan skólakerfisins eigi að stefna að víðtækara stoðkerfi fyrir börn og þeirra fjölskyldur. Skólinn á að bera kjarna þeirrar þjónustu sem lítur að börnum. Ég vil sjá skólaheilsugæsluna virkari, ég vil sjá tannlæknaeftirlit koma inn í skólana, ég vil sjá virkari félagsþjónustu innan skólanna. Ég vil að allar fjölskyldur hafi rétt á allri þessari grunnþjónustu í gegnum skóla barnsins með einum eða öðrum hætti. Ég tel einnig afar mikilvægt að tómstundastarf barna verði tengt betur við skólastofnanir. Tilboð innan skólanna eru mikilvæg, öryggi barna í fyrirúmi.Ég tel að nú sem aldrei fyrr sé mikil krafa og einstakt tækifæri til að fá nýjan takt í þjónustu við börn og foreldra.

Atvinnuleysi - Atvinnutækifæri

Ég legg mikla áherslu á mikilvægi endurmenntunarstofnana um land allt. Þjónusta á við náms- og starfsráðgjöf er afar miklvægur þáttur í uppbyggingunni á því samfélagi sem við eru stödd í í dag. Fólk á tímamótum sem þeim að standa frammi fyrir atvinnuleysi verður að hafa aðgang að slíkri þjónustu. Til uppbyggingar og hvatningar. Við megum ekki tapa kraftinum sem fólkið býr yfir.

Fyrir atvinnulaust fólk þarf að byggja upp uppbyggingarþjónustu. Frítt í ýmsa þjónustu fyrir hádegi er góð lausn og uppbyggileg. Að gefa atvinnulausu fólki tækifærið til að hitta annað fólk, styrkja sig félagslega, andlega sem líkamlega - gæti ekki verið einfaldara og hagkvæmara. Almenningsstaðirnir eins og sundlaugar, líkamsræktarstöðvar og bókasöfn ættu að taka fagnandi við fólkinu okkar alls staðar, slíkt væri átaksverkefni sem allir gætu verið stoltir af.

Ég sé náttúru Íslands fyrst og fremst sem auðlind sem þarf að vernda og búa svo um að hægt sé að njóta hennar. Tækifærin eru í ferðamannaþjónustunni og þar þarf að styrkja stoðir. Einstaklingsframlagið þar er mikilvægt og brýnt að hlúa að þeim verkefnum og hugmyndum sem fólið sjálft býr yfir. Eflum ferðamannaþjónustuna vítt og breitt. Náttúruperlurnar leynast alls staðar og þær þarf að varðveita en hafa aðgengilegar.

Jafnréttis og mannréttindarmál

Ofur einfalt mál – jafnréttisuppeldið þarf að hefjast í leikskóla og vera markvisst, það felur í sér viðhorfabreytingar sem brýnt er að byggja upp frá grunni hvers einstaklings. Framþróunin á sér stað innan frá og viðhorf er hér lykilatriði. Ég tel mjög mikilvæg að halda þessum bolta á lofti á tímum sem þessum. Því nú er fólk að hugsa um að lifa af og þá þarf að hafa yfirsýn og utanum hald um alla minnihlutahópa og jafnrétti kynjanna í sinni víðustu mynd. Við verðum að vera á vaktinni og sinna þeim verkefnum vel.

Evrópusambandið

Alþjóðasamfélagið skiptir okkur sem þjóð miklu máli. Tengin út í heim er ein af mikivægu forsendunum fyrir almennum framförum í íslensku samfélagi. Ég er fylgjandi því að farið verði í aðildaviðræður um inngöngu í evrópusambandið. Það er mitt mat að það sé algjörlega nauðsynlegt að hafa gjaldmiðil í jafnvægi ekki síst með tillliti til útflutnings eins og í sjávarútvegi. Ég tel að opin umræða, fræðandi og fagleg eigi að fara fram þannig að hún sé hvetjandi fyrir almenning til að taka afstöðu. Að uppfræða þjóðina um evrópumál er nauðsynlegt.

AF hverju ég?

Ég  hef ýmsa reynslu af óvenjulegum verkefnum og tel að hún nýtist vel á Alþingi. Ég er óhrædd við að taka ákvarðanir og vön að vinna í óvenjulegum aðstæðum og hinum megin við borðið. Ég er baráttukona í eðli mínu, heiðarleg, þrautseig og fylgin mér. Ég er skólastjóri Barnaskóla Hjallastefnunnar í Hafnarfirði og hef unnið að mannréttindamálum á vegum Samtakanna 78 þar sem ég starfaði sem fræðslufulltrúi.


Hvernig fólk þurfum við á þing?

Ég tel að mínir kostir og sú færni sem ég bý yfir komi til með að nýtast vel á Alþingi á komandi misserum. Ég er samkvæm sjálfri mér sem ég tel afar mikilvæg. Ég er staðföst og fylgin ákvörðunum mínum. Ég tel mig hafa reynslu sem hefur eflt víðsýni mína á marga vegu. Ég hlusta á fólk, er óhrædd við að taka ákvarðanir og geng í verkin.

Ég hef góða reynslu í að fara ótroðnar slóðir, annars vegar hef ég öðlast þekkingu og reynslu af því að reka óhefðbundinn grunnskóla og hins vegar hef ég mikla reynslu af því að tala við fólk og upplýsa á vettvangi Samtakanna 78 og vinna að stefnumótun fræðslumála. Ég hef reynslu af því að vinna hinum megin við borðið í samvinnu við stjórnvöld og bæjaryfirvöld á vettvangi skólamála og mannréttindamála.

Ég er alin upp í sveit og hef unnið öll þau helstu störf sem því fylgja.

Ég er óhrædd að takast á við nýja hluti og fara áður óþekktar leiðir. Ég hef öðlast mikinn sjálfsstyrk sem manneskja af því að vera ég og takast á við það verkefni.

Ég er tilbúin til þess að beita mér af öllu afli á Alþingi fyrir betra og uppbyggilegra samfélagi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband