Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ég gef kost á mér á lista Samfylkingar í suðvesturkjördæmi.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér á lista Samfylkingar í suðvesturkjördæmi. Þar sem krafan eftir nýju fólki er mikil fannst mér ekki annað hægt að taka þeirri áskorun. Ég tel mikilvægt að það fólk sem stendur á hliðarlínunni og telur sig hafa eitthvað fram að færa nýti tækifærið núna og gefi kost á sér.

Ég stend fyrir jöfnuð í samfélaginu, ég vil sanngjarna skiptingu gæða, jöfn tækifæri fyrir fólkið í landinu hvort heldur sem er til sjávar eða sveita. Ég vil beita mér fyrir því að hér skapist samfélag sem er hvetjandi fyrir manneskjuna til athafna sér til viðurværis. Hér býr fólk sem kann og getur, hefur þor og dugnað og því þarf að sinna núna.

Ég vil sjá virka fjölskyldustefnu þar sem hugað er að velferð allra fjölskyldna. Ég stend með fjölmenningarlegu samfélagi. Ég vil sjá menntastofnanir eins og leik- og grunnskóla vera virkari aðila að velferð fjölskyldunnar. Þessar stofnanir eru það umhverfi sem börn dvelja lengstum tíma sínum dag hvern, og við sem störfum innan þessara stofnana berum mikla ábyrgð. Ég vil sjá stjórnvöld styrkja þætti sem lúta að frekari þróun þessara stofnana. Iðnvæðingarumhverfið er löngu úrelt og nú verðum við að sinna einstaklingunum út frá þeirra forsendum og aðlaga umhverfið að þeirra þörfum og standa með einstaklingunum.

Ég vil sjá áherslur breytast til að mynda í grunnskólunum þar sem megin stef menntunar barna og unglinga fari að snúast um líðan, sjálfsstyrkingu og verðleika hvers og eins. Hver einstaklingur býr yfir ákveðnum styrkleikum og menntastofnanir eiga að vera að styrkja þessa þætti hjá hverjum og einum. Frumkvæði, þor og kjarkur eru eiginleikar sem eru öllum mikilvægir og ekki síst nauðsynegir samfélaginu sem við búum í.

Ég gef kost á mér til að virkja mannauðinn í landinu fyrst og fremst.


Hvar liggja áherslurnar?

Hver eru hin raunverulegu gildi samfélagsins? er spurning sem margir spyrja sig um þessar mundir. Í mínum huga er algjört lykilatriði að stjórnvöld tryggi að mál málanna þ.e. ein helsta stoð samfélagsins fjölskyldan nái að standa á traustum grunni og styrkja sig sem það afl samfélagsins sem mestu máli skiptir.

Alla þá þætti sem snúa að fjölskyldunni verður að styrkja enn frekar á tímum þrengina og erfiðleika sem margir einstaklingar glíma við vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa. Því skiptir máli að stjórnvöld setji fjölskyldustefnu á dagskrá, móti hana til framtíðar og standi með henni - það skiptir máli.

Málefni einstaklinganna eru of fljót að verða undir í allri umræðu um hrun efnahagslífsins. Öll orkan fer í að huga að sökudólgunum, finna þá, láta þá gjalda fyrir og svo framvegis. Stjórnvöld verða að skipta liði í þessu sambandi og hafa öfluga "vél" sem sinnir málefnum fjölskyldnanna, barnanna. Í öllu kappinu um að ná sem mestum sparnaði gerist það að þjónusta við börn er fljót að verða eitt af aukaatriðunum þar sem málsvari barn hefur sig ekki í frammi. Og það er einfalt að sjá það fyrir sér að niðurbrotnir foreldrar hafa ekki orkuna og kraftinn til að fylgja málefnum innsta kjarnans síns eftir - því allir eru að þrauka þar til yfir líkur. Slíkt viðhorf og aðgerðarleysi má ekki ná yfirhöndinni.

Stjórnvöld verða að huga að þeirri þjónustu sem menntastofnanir bjóða fjölskyldum upp á í leik - og grunnskólum. Sú þjónusta á að vera ein af lykilatriðum fjölskyldustefnunnar. Hvernig er niðurskurði komið fyrir í þeirri þjónustu? Er farið að fjölga börnum í bekkjum í grunnskólunum? Hefur dofnað yfir einstaklingsathyglinni sem allir hafa stefnt að fram til þessa? Er sérhagsmunum einstakra barna ýtt út af borðinu? Þetta eru allt þættir sem hafa gríðarleg áhrif á líðan barna sem og foreldra þeirra og við því verður að bregðast. Er grunnþjónustan við börn í hættu?

Ný menntastefna þótti mér flott innlegg og góð samhljómun með þeirri fjölskyldustefnu sem ég vil sjá. Ráðamenn og konur töluðu mikið um breyttar áherslur í skólakerfinu og er brýnt að halda þeim til haga og upphefja þær. Líðan barna þótti vega mest í því samhengi. Að hver skólastofnun þyrfti að rýna í sjálfa sig og huga að þeim leiðum sem farnar eru í menntun barna með það að leiðarljósi að líðan þeirra væri alltaf í fyrirrúmi. Að styrkur hvers barns á eigin forsendum væri aðalatriðið - svo falleg orð var hugljúft á að hlusta.

Í samfélagi dagsins í dag verður að nýta krafta til að halda utan um fjölskylduna, styrkja stoðum undir faglega og framsækna fjölskyldustefnu þar sem líðan barna og fjölskyldna þeirra er sett í forgrunn.

 


Trúleysið að verða algert.

Það var gott að koma við á Austurvelli í gær og finna fyrir undiröldunni sem stigmagnast með hverjum deginum. Fólk er búið að fá nóg og fyrir löngu, en það sem hefur haldið fólki niðri hingað til er eflaust trúin á að eitthvað fari að berast frá stjórnvöldum annað enn þurrir blaðamannafundir um ekki neitt... Mín trú á stjórnvöld er alla vega dáin og liðinn undir lok - sá atorkukraftur sem virtist búa meðal þess samfylkingarfólks  sem er í forsvari fyrir valdið virðist enginn. Hvað er að gerast? Mér er frámunað að skilja hvers vegna betra virðist að ala fólk á þögninni, óvissuni og leyndinni sem virðist ríkja yfir fyrirætlunum stjórnvalda ef þær eru þá einhver. Þjóðinn er í vanda og til þess að efla samstöðuna verða stjórnvöld að upplýsa fólk um gang mála og játa sig þá bara sigraða ef þau hafa engar lausnir því það verður að halda áfram og fólk krefst þess. Því spái ég því að næsta laugardag verði margfalt fleiri á Austurvelli en voru í gær - því nú er nóg komið.

En hvað gerðu stelpurnar???

Varð að gera athugasemd við þessa frétt... Er þetta ekki einmitt tilfellið að svo rótgróið í menningu okkar að uppákoma sem þessi sem er að mínu mati afar skemmtileg skuli eingöngu eiga við drengi en ekki stúlkur? Það væri nú gaman að sjá forvsarsmenn skólans á Höfn eða nemenndaráðsins taka af skarið eða bara stúlkur út um allt land taka af skarið og ögra sjalfum sér með því t.d. að hlaupa berleggjaðar hringin í kringum skólann sinn. Það er alla vega ein af kjarkæfingum sem við stundum í mínum skóla!
mbl.is Hreystimenni á Höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skólasamfélagið og líðan barna.

Ég velti því fyrir mér hvernig skólasafélagi við viljum tilheyra. Við hvaða aðstæður líður börnum vel og hversu gætilega þurfum við sem sinnum börnunum að fara?

Í skólasamfélaginu mínu skiptir öllu máli að börnunnum líði vel - þetta er jú þeirra staður all góðan part af sólarhringnum og það væri skelfilegt ef sá tími væri upplifun vonbrigða, vanmáttar og einmanakenndar svo eitthvað sé tekið til...ekki satt? Barni sem ekki líður vel með það að koma í skólan einn morgun er tilefni til alvarlegra íhugunar og aðgerða, því slíkt teljum við afar alvarlegt og leggja okkur í líma til að slíkt gerist a.m.k. aldrei oftar en einu sinni!

Ég er hrædd um að oft gefist minni tími en gott þykir til þess að sinna sálini. Börn fara í andhverfa hegðun, sýna uppsteit, eru með hroka og óstýrilæti. Og hvað er til ráða?

Þarfnast skólasamfélagið ekki gagngerar endurmenntunnar eða byggingar?? Ég sé að þættir eins og fámennari hópar á hvern kennara virkar fjandi vel, öguð samskipti og þjálfun í öllum sem heiti, sjálfstæði, virðing, sjálfsagi, vinátta og umhyggja snarvirka svo ekki verður um villst.

 


Komiði sæl og blessuð (grín)

það er orðið svo langt síðan síðast... svona flýgur tíminn þegar í nógu er að snúast...Skólinn minn orðinn sjálfstæður með vottað leyfi frá ráðuneytinu og allt í blóma! Sjálf komin á fullt í nám, já lýðheilsufræðin er nokkuð áhugavert viðfangsefni og hlakka ég til þegar sú viska hefur tekið sér gott pláss inni á harða diskinum... aldrei að vita!

En hvað er annars að frétta? Einhvern veginn finnst mér ekki spyrjast út um eitt né neitt sem viðkemur pólitíkinni enda kannski bara ágætt...en menn mega nú ekki þegja sig í kaf samt...


Ég er eins og ég er...

og hvernig á ég að vera eitthvað annað... flottasti textinn um þessar mundir. Ég er komin í hinsegin fíling enda engin smá gleði og hamingja næstu daga :-) Það er ólýsanleg tilfinning sem brýst fram á dögum sem þessum. Tilfinning sem samanstendur af ólýsanlegu þakklæti, gleði, sigri og ekki síst stolti yfir því að hafa tekist á við sjálfa mig eins og ég er á sínum tíma... Það augnablikið og sú stund hverfur aldrei úr mínu minni... Að uppgötva og viðurkenna sjálfa sig og endurskapa ímynd sína er minn allra dýrmætasti tími.  Ég óska okkur öllum til hamingju með hinsegin daga og hvet alla sem ekki hafa stigið skrefið að setja sig í startholurnar því við erum þarna úti til halds og trausts!


Of góður fílingur?

Það er spurning! Ég er í svo góðum fíling eftir að í ljós varð að konan sem ég studdi í ríkisstjórn er kominn þangað. Hún hefði samt verið enn flottari sem forsæitsráðherra en hva þetta er frábært. Ég var svo sátt við menn og mýs að ég hafði orðið enga löngun til að blogga um stjórnmál lengur. Ekki gott samt ef það sem rekur mann áfram til að taka þátt í umræðunni séu neikvæð öfl. Og þá er að gera eitthvað í málunum....

Það sem mér finnst samt fallegast við þessa nýju ríkisstjórn er Jóhanna Sigurðar hún er bara flottust, ég samgladdits henni mest og mjög innilega því hún var svo ótrúlega glöð og hamingjusöm með að verða velferðamálaráðherra sem er svo frábær af því að þar á hún svo sannarlega heima! Jóhanna brosir sínu breiðasta og það er ekki annað hægt en að taka þátt í því - til hamingju Jóhanna hún amma mín heitin brosir svo sannarlega hringinn handan móðunar miklu - sú væri ánægð með sína núna!


Nú er kominn tími á'ða.

Tíminn flýgur - enn ein tímamótin framundan. Fyrsta skólaári Barnaskóla Hjallastefnunar við Hjallabraut senn á enda - þvílík hamingja með mikin sigur hjá kennurum og ekki síst sjálfri mér.

Við kveðjum glöð börn sem hafa á þessum "stutta tíma" þroskast geysilega, hækkað um marga sentimetra og orðið enn flínkari í sjálfum sér - því hjá okkur er það stóra málið að vera einmitt eins flínk og mögulegt er í sjálfum sér - ekki smart??

Við kveðjum ekki síst ótrúlega glaða foreldra sem hafa treyst okkur fyrir börnunum sínum, treyst okkur til að vera leiðandi í lífi þeirra frá degi til dags. Og það flottasta er að flestir foreldrar ætla að gera það áfram.

Öll grunskólabörnin okkar ætla að vera með okkur næsta skólaár sem er stór sigur fyrir okkur sem hér höfum staðið af okkur vindkviðurnar í vetur - því ekki voru aðstæðurnar eins og best verður á kosið. En það segir okkur en og aftur að það er innihaldið sem telur, umbúðirnar eru í sjálfu sér aukaatriði...

 


Samfylkingin í ríkisstjórn?

Það voru ótrúleg gleðitíðindi fyrir mig og mína þegar fram kom að hæstvirtur Geir hefði gefið sig á tal við okkar leiðtoga Ingibjörgu Sólrúnu. Maðurinn verður ekki svikinn af því. Ef að er gáð þá er leitun að annari eins.. Ofurklár kona sem hefur góða yfirsýn, þorir að taka af skarið og berst fyrir jöfnuði á alla kanta.

Það verður gaman að fylgjast með slíku samstarfi og frábært tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn að komast í lið með Samfylkingunni. Það á bara eftir að gera þeim gott og víkka sín þeirra á ýmis málefni. Hlakka bara til að sjá hverjir fara í stólana - hef fulla trú á að góður framkvændapakki komi út úr þessum samnigaviðræðum. Ég hef nefnilega ofurtrú á Ingibjörgu Sólrúnu nú fer hún að skína í réttu ljósi...

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband