Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Virk fjölskyldustefna brýnt verkefni á nýjum tímum.

Eitt af mikilvægustu verkefnunum verður að að byggja upp og tryggja  samfélag sem styður við einstaklingana og fjölskyldur við óvenjulegar aðstæður. Í ljósi þess að mörg þúsund einstaklinga hafa misst atvinnu verðum við að horfast í augu við þann raunveruleika að margfalt fleiri fjölskyldur þurfa almenna aðstoð við að halda sér á floti dag frá degi – andlega jafnt sem fjárhagslega. 

Virk fjölskyldustefna er ein grundvallarstoðin sem þarf að setja í stefnumótun fyrir samfélagið allt. Fjölskyldustefna sem tryggir að samfélagið vinni með fjölskyldunum. Atvinnulífið, skólakerfið, heilbrigðiskerfið – allir þessir þætti verða að vinna betur saman og setja sér sameiginleg markmið sem miða að almannaheill. 

Skólakerfið er þar afar mikilvægur hlekkur. Skólakerfið er sú stofnun samfélagsins sem allar fjölskyldur stóla á og öll ungmenni verja meirihluta tíma sínum innan. Skólakerfið þarf að verða sú stoð sem bakkar fjölskyldurnar upp - tengist þeim enn sterkari böndum og veiti alla þá grunnþjónustu sem fjölskyldur þurfa á að halda með börn sín.  

Það er mitt mat að innan skólakerfisins eigi að stefna að víðtækara stoðkerfi fyrir börn og þeirra fjölskyldur. Skólinn á að bera kjarna þeirrar þjónustu sem lítur að börnum. Ég vil sjá skólaheilsugæsluna virkari, ég vil sjá tannlæknaeftirlit koma inn í skólana, ég vil sjá virkari sálgæsluþjónustu innan skólanna. Ég vil að allar fjölskyldur hafi rétt á allri þessari grunnþjónustu í gegnum skóla barnsins með einum eða öðrum hætti. Ég tel afar mikilvægt að tómstundastarf barna verði tengt betur við skólakerfið. 

Ég vil að öll börn án nokkurrar aðgreiningar eigi rétt á sömu þjónustunni. Ég vil að foreldrar geti óskað eftir og fengið viðtöl og leiðbeiningar þess fagaðila hver svo sem hann er áður en mál eru komin í þrot. Forvarnarstefna sem mun skila arðsemi í betri líðan einstaklinganna.Kerfið á að standast þessa kröfu með skilvirkum hætti - við höfum mikla þörf fyrir þjált kerfi, opið kerfi þar sem foreldrar gera sig gildandi. 

Fjölskyldustefna snýst ekki síst um samvinnu atvinnulífsins og annarra stofnana sem koma að fræðslu og uppeldi barna. Samfélag foreldra og samfélag barna verða að vinna saman til að við tryggjum þétt samfélag með öryggi og velferð einstaklinganna að leiðarljósi. Að slíkri uppbyggingu er ég tilbúin að vinna.


Atvinnutækifærið íslensk náttúra.

Íslensk náttúra er mögnuð eins og við vitum öll. Krafturinn og orkan er eitthvað sem mörgum hugkvæmist að nýta ýmist til frekari orkugjafa eða til mannbætandi ástundunar. Ég styð þær hugmyndir sem snúast um að nýta náttúru Íslands til útivistar með ýmsu móti. Ég vil hið "Græna Ísland" og tel öllum betur borgið með því að kynna land og þjóð sem land fyrir fólk sem vill koma og njóta, endurhlaða sálina sína heldur en stóriðju.

Ég er nefnilega sammála því að Ísland er stórbrotið land og hér eigum við merkilega sögu og við þurfum að varðveita þann frumkraft sem hér er. Möguleikar atvinnu tengda ferðamannaþjónustu eru endalausir og við þurfum að endurvekja þá stemningu sem var þegar hvert smáþorpið á fætur öðru bauð upp á afar fjölbreytta þjónustu fyrir ferðamenn og þá var nokk sama hvert var komið hvort heldur sem það var á Reykhólar eða Akureyri. Stemningin í sveitunum var góð, það létti yfir fólki og það kviknaði nýtt líf í sveitunum. Bændur sáu fram á að þeir höfðu ýmislegt fram að færa og heimamenn voru virkjaði - Þetta gátum við og þetta þarf að endurvekja.


Nýir starfshættir.

Ég er alveg fullviss um það ef þingheimur tæki höndum saman og setti sér þær virðulegu reglur að fara aldrei niður á plan skítkastanna að þá miðaði málum almennt betur. Ég er á því að málalengingar um ekki neitt taki Alþing svolítið niður og geri lítið úr því mikilvæga starfi sem þar fer fram.

Í starfsmannareglum vinnustaðarins sem ég vinn á er skýrt kveðið á um það t.d. að allri umræðu skuli haldið á jákvæðum nótum, óþarfa tuð og röfl er ekki í boði. Það er í boði að tala málefnalega og lausnamiðað þ.e. ef eitthvað er ekki eins og þú vilt að það sé þá gerir þú eitthvað í því og hefur áhrif á umhverfið þitt með tillögum að lausnum eða hreinskiptnum ábendingum. Ótrúlega einfalt en samt oft ekki svo einfalt í framkvæmd en gott að hafa til að minna sig á og til æfinga í faglegum samskiptum hvar og hvenær sem er.

Ég vil sjá nútímalegri vinnubrögð viðhöf á Alþingi þar sem kappið um skítkastið er ekki til staðar heldur keppist fólk við með gagnrýnum og öguðum hætti að skapa betra samfélag. Ólík sjónarmið og ólíkar nálganir hafa nefnilega ekkert með skítkast að gera.


Fyrirmyndarþjónusta fyrir atvinnulausa!

Ég hef velt vöngum yfir því hvernig hafi verið brugðist við þeirri staðreynd að nú höfum við stóran hóp af fólki sem stendur uppi atvinnulaust eftir allt bullið. Ég hef ekki heyrt af mörgum góðum úrræðum en þó einu sem kom þó fyrr til vegna annarra ástæðna. Á suðurnesjum finnst mér hafa tekist vel til. Þar er miðstöð atvinnulausra starfandi og boðið upp á ýmislegt uppbyggilegt fyrir fólk sem stendur frammi fyrir því að hafa að fáu að stefna dag hvern.

Frítt í ýmsa þjónustu fyrir hádegi er góð lausn og uppbyggileg. Að gefa atvinnulausu fólki tækifærið til að hitta annað fólk, styrkja sig félagslega, andlega sem líkamlega - gæti ekki verið einfaldara og hagkvæmara. Almenningsstaðirnir eins og sundlaugar, líkamsræktarstöðvar og bókasöfn ættu að taka fagnandi við fólkinu okkar alls staðar, slíkt væri átaksverkefni sem allir gætu verið stoltir af.

Lífskraftinn þarf að efla í slíkri stöðu það skal ekki vanmeta. Andleg og likamleg styrking er það sem samfélagið verður að standa saman um svo brýnt er það nú. Andleg og líkamleg heilsa fólks er lykilatriði að auðugri uppbyggingu þar sem kraftur og hugmyndir er virkjað upp á nýtt. Þannig fara hjólin að snúast á ný. Slíka þjónustu vil ég sjá sem víðast um landið, svara kallinu strax með einföldum en afar góðum og árangursríkum lausnum.


Betri tíð.

Ég bind miklar vonir við félagshyggjustjórn næstu misserin. Það er krafa fólksins að nú verði blaðinu snúið við og efst verði þar á lista velferð fólksins. Í stað velferðar gróðamaskínunnar.

Við þurfum að ná fram stöðuleika í líf fólks. Það verður ekki við það setið að hér verði stærri hópur en nokkru sinni fyrr atvinnulaus í landi sem allt hafði til alls. Uppbyggingin verður að snú að þessum hópi fólks því þar er mannauður sem ekki má tærast upp og verða að engu. Mannauður sem hingað til hefur átt stóran þátt í uppbyggingu af ýmsum toga, hefur menntun og færni til þátttöku í atvinnustarfsemi af fjölbreytilegum toga.

Verkefni stjórnvalda verður að sjá til þess að þetta fólk nái sér á strik og þeirra fjölskyldur komist í samt jafnvægi. Grunnstoðir samfélagsins verða að standa styrkum fótum og og spyrna á móti. Það verður að hafa gætur á og forgangsraða rétt í aðhaldsaðgerðum. Höldum uppi grunnþjónustunni okkar og styrkjum hana. Skerum ekki niður gæði í skólastarfi eða heilsugæslu, það mun einungis hafa enn meiri kostnað í för með sér. Við verðum að hugsa til lengri tíma, skammtímasparnaður er hættulegur samfélagi sem er í molum.

Stoppum óráðsíuna og höldum að okkur höndum en stöndum vörð um mikilvæga þjónustu sem snertir fjölskyldurnar í landinu.


Velferð barna í brennidepli.

Ég er hjartanlega sammála því sem fram kemur í greininni Heilsugæslan á krepputímum í Morgunblaðinu í dag. Þar er verið að fjalla um mikilvægi þess að heilsugæslan fái þann styrk sem hún þarf á að halda til að halda uppi afar mikilvægri þjónustu á erfiðum tímum. það sem skiptir máli er að skilningur sé fyrir hendi hjá stjórnvöldum, þ.e. að hugsað sé um velferð fólksins sem er að kljást við hrun kerfisins. Þjónustan sem þarf að vera til staðar þarf að taka jafnt til líkamlegrar heilsu  sem og andlegrar heilsu. Heilsugæslan þarf að geta brugðist hratt og vel við.

Það er mitt mat að skólakerfið eigi að tengja sig betur við heilsugæsluna þar er farvegur sem þarf að ryðja betur og nýta þá þekkingu sem hvor stofnunin um sig hefur. Þar eru í mörgum tilvikum um sama fólkið að ræða sem sækir þjónustuna. Báðar þjónustustofnanirnar eru í nærsamfélaginu og eiga að taka þátt í að halda vel utan um börn og fullorðna nú sem aldrei fyrr.


Kynningin.

Sara Dögg Jónsdóttir Hefur ákveðið að gefa kost á sér í forystusveit Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningar 25. apríl 2009. Köllun eftir nýju fólki til starfa er áskorun sem hún tek fagnandi.

Sara Dögg er grunnskólakennari að mennt. Hún er skólastjóri Barnaskóla Hjallastefnunnar í Hafnarfirði og hefur stýrt honum frá upphafi eða frá haustinu 2006. Þar á undan starfaði Sara Dögg sem kennari fyrst í Reykjavík en síðar í Barnaskólanum í Garðabæ. Á árunum 2000 – 2005 var hún fræðslufulltrúi Samtakanna 78. Sara Dögg er 35 ára gömul, fædd 26. júlí 1973 og uppalin á Reykhólum í Reykhólasveit. Hún hefur búið í Hafnarfirði frá desember 2005 ásamt sambýliskonu sinni Bylgju Hauksdóttur. Sara Dögg telur sig hafa þá reynslu og hæfni til að takast á við ákveðin verkefni sem verða brýn á næstu misserum. Frumkvöðlastarf á sviðum menntamála og mannréttinda- og jafnréttismála eru þau störf sem Sara Dögg hefur unnið síðustu 9 árin. Helstu mál: Virk fjölskyldustefna er brýnt verkefni sem Sara Dögg leggur áherslu á að verði komið í framkvæmd. Fjölskyldustefna sem stendur vörð um allar fjölskyldur og velferð þeirra. Þar er skólakerfið afar mikilvægur hlekkur og eru hugmyndir um skólakerfið sem virkari stoðnet fjölskyldunnar málefni sem Sara Dög vill vinna uppbyggingu á. Menntun og fræðsla fyrir fullorðna er brýnt verkefni sem þarf að ýta stoðum undir um land allt. Stefnumarkandi vinna sem einblýnir á að styrkja atvinnulausa í að vinna nýja lífsýn með nýjum atvinnutækifærum með menntun og starfsráðgjöf er afar mikilvægt. Frumkvöðlastarf þarf að virkja og koma í farveg. Atvinnuskapandi hugmyndir fólks eru mikilvægar og brýnt að skapa vettvang fyrir slíka hugmyndavinnu sem víðast um landið allt. Jafnréttismál í sínum víðasta skilningi er einn af þeim málaflokkum sem Sara Dögg hefur starfað við og vill beita sér fyrir á landsvísu. Jafnrétti kynjanna er eitt af aðalsmerkjum Hjallastefnustarfs og þar hefur hún unnið síðustu 5 ár. Mannréttindabarátta samkynhneigðra er önnur hlið jafnréttismála sem Sara Dögg hefur unnið að, með fræðslu- og kynningarstarfi fyrir fagfólk og þá sérstaklega skólafólk.


Fjölskyldustefna

Ég tel brýna þörf á því að virk fjölskyldustefna verði mótuð og henni komið í framkvæmd sem allra fyrst. Á tímum sem þessum þar sem mikil upplausn hefur orðið í lífi fólks þá er mikilvægt að utanum hald sé tryggt.

Fjölskyldustefna sem býður upp á heildstæða lausn fyrir allar fjölskyldur. Með virkri fjölskyldustefnu á ég við það að allar þær grunnstofnanir sem fjölskyldur tengjast með einum eða öðrum hætti vinni saman - að þar sé samhljómur á milli.

Skólakerfið er þar afar mikilvægur hlekkur. Það er mitt mat að í leik- og grunnskólum eigi að stefna að víðtækara stoðkerfi fyrir börn og þeirra fjölskyldur. Ég vil sjá skólaheilsugæsluna virkari, ég vil sjá tannlæknaeftirlit koma inn í skólana, ég vil sjá virkari sálgæsluþjónustu innan skólanna. Ég vil að allar fjölskyldur hafi rétt á allri þessari grunnþjónustu í gegnum skóla barnsins með einum eða öðrum hætti.

Ég vil að öll börn án nokkurrar aðgreiningar eigi rétt á sömu þjónustunni. Ég vil að foreldrar geti óskað eftir og fengið viðtöl og leiðbeiningar þess fagaðila hver svo sem hann er áður en mál eru komin í þrot. Forvarnarstefna sem mun skila arðsemi í betri líðan einstaklinganna.

Kerfið á að standast þessa kröfu með skilvirkum hætti - við höfum mikla þörf fyrir þjált kerfi, opið kerfi þar sem foreldrar gera sig gildandi.

Fjölskyldustefna snýst ekki síst um samvinnu atvinnulífsins og annarra stofnana sem koma að fræðslu og uppeldi barna. Samfélag foreldra og samfélag barna verða að vinna betur saman til að við tryggjum þétt samfélag með öryggi og velferð einstaklinganna að leiðarljósi.

Atvinnulífið verður að vera virkur þátttakandi að slíkri stefnu til að hún gangi upp. Gildismat og viðhorf í garð forgangsverkefna verður að endurskoðast. Tími einstaklinganna er runninn upp, velferð þeirra og bætt líðan skiptir máli fyrir afkomu okkar.

 

 


Sara Dögg í framboð.

Ég hef verið félagi í Samfylkingunni frá upphafi. Fyrst um sinn kom ég að vinnu Framtíðarhópsins sem þá var og hét, var dugleg að sækja fundi og hafði gaman af. Ég hef tvisvar ljáð frambjóðendum flokksins krafta mína í kosningum. Ég er í sjálfu sér ekki innanbúðarkona í flokknum hvorki í sveitarfélaginu mínu eða annars staðar.

Ég treysti því að fólk taki afstöðu um mig af verkum mínum og hugsjónum - engu öðru.

Ég býð mig fram fyrst og fremst vegna áhuga míns á pólitík og þeirri áráttu minni að þurfa sífellt að vera að kljást við nýja hluti. Ég hef oftar en ekki valið mér viðfangsefni sem krefjast þrautseigju og kjarks til að fara nýjar leiðir og óvenjulegar leiðir. Ég hef Unnið að verkefnum sem hafa þarfnast viðurkenningar samfélagsins og nýrrar sýnar.

Ég er baráttukona í eðli mínu og blómstra í aðstæðum sem eru krefjandi.

Ég er óhrædd við nýjar og óþekktar aðstæður og tel mig eiga fullt erindi í þau verkefni sem vinna þarf á næstu misserum.

 


Ég stend fyrir fjölbreytileika á öllum sviðum.

Ég stend með þeirri hugmyndafræði að styðja við sprotafyrirtæki í landinu. Ég vil sjá einstaklingana fá tækifæri til þess að virkja þekkinguna sína á hvaða sviði sem er.

Ég vil sjá bóndann taka framleiðsluna sína í eigin hendur - ég stend með hugmyndinni beint af býli. Ég vil sjá bændur standa með eigin framleiðslu og skapa sín verðmæti með betri gæðum og séreinkennum afurðarinnar sinnar.

Ég vil sjá stuðning við hugmyndir einstaklinga sem hafa góðar viðskiptahugmyndir í farteskinu. Ég vil styðja við bakið á konum sem vilja skapa sér sinn eiginn starfsvettvang og brjótast út úr viðjum kerfisins.

Ég vil sjá uppgang í samfélaginu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband