Lýðræði í skólastarfi.
23.3.2009 | 15:49
Lýðræðið er umfangsmikil umræða í þjóðfélaginu um þessar mundir og mörgum sem finnst margt. Þegar komið er á hið háa Alþingi er krafist þess að vinnubrögð séu lýðræðisleg og margt sem þykir miður fara í því sambandi.
En hvar lærum við sem einstaklingar þess konar vinnubrögð? Eru samfélagasstoðirnar okkar byggðar upp með lýðræðislegum vinnubrögðum? og er þátttaka þegnanna virt?
Það skiptir öllu máli í mínum huga að lýðræðisleg vinnubrögð séu æfð strax við upphaf skólagöngu. Börn þurfa virka þjálfun í að iðka lýðræðið til þess að krafan verði sanngjörn þegar á fullorðinsaldurinn er komið. Það sem ekki er æft ber aldrei góðan árangur!
Hér þarf að setja við nýjan tón - skólastofnanir samfélagsins verða að taka virkt lýðræði inn í inntak sitt og æfa börn sem og fullorðna innan hverrar stofnunar í slíkum félagslegum athöfnum. Það kostar virðingu fyrir skoðunum einstaklinganna, tækifæri til að tjá þær, sem og að fylgja þeim eftir hverju sinni. Slíkt er vinna en vel framkvæmanleg innan hvers skólasamfélags fyrir sig. Þar sem einmitt ætti að vera einstaklega gott umhverfi og kjöraðstæður fyrir slíkar æfingar í raunveruleikatengdum verkefnum við raunverulegar aðstæður.
Skólar Hjallastefnunnar hafa frá upphafi unnið markvisst með þessa þætti og má sjá verulegar framfarir í félagslegum samskiptum barna sem æfa lýðræðisleg vinnubrögð á eigin skinni. Við verðum að horfa til framtíðar og miða skóla nútímans við þær þarfir og kröfur sem við viljum gera til þegna nútíðarinnar og framtíðarinnar. Skoðanaskipti og athafnir undir merkjum lýðræðisins skila sér til framtíðar og byggja upp einstaklinga með góðan félagslegan þroska.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.